10. apr. 2012

Sjálfstæðisflokkur styður eignarnám

Ég fór á myndina Baráttan um landið í Bíó Paradís um helgina og get heilshugar mælt með henni. Það sem mér þótti einna áhugaverðast við myndina voru viðtöl við fólk sem býr á svæðum sem búið er að gjörbreyta með virkjunum eða sem á það yfir höfði sér að fá stóriðju eða virkjun í túnfótinn hjá sér. ,,Það vill enginn láta reka sig að heiman," sagði bóndi sem býr rétt við fyrirhugað þungaiðnaðarsvæði á Bakka og bóndi við neðri hluta Þjórsár sagði virkjanaáformin þar eins og vondan draum sem hann hefði stöðugt hangandi yfir höfðinu.

Það er ótrúlegt til þess að hugsa hversu víða fólk hefur þennan vonda draum hangandi yfir höfðinu. Fyrir utan Bakka og Þjórsá get ég í fljótu bragði nefnt Voga, Skaftártungu og Skagafjörð. Fyrir skömmu birtu nokkrir landeigendur í Skaftártungu bréf í fjölmiðlum þar sem þeir mótmæltu hugmyndum um virkjanaframkvæmdir á svæðinu og í fréttum Rúv í dag sagði frá landeigendum í Skagafirði sem standa í átökum við Landsnet sem vill leggja 200 kílóvolta stóriðjulínu frá Blöndustöð til Akureyrar.

Þessi angi átakanna um virkjanir og stóriðju fær furðu litla athygli í umræðunni og stjórnmálamenn láta flestir eins og fólkið með vonda drauminn hangandi yfir höfði sér sé ekki til. Formaður Sjálfstæðisflokksins, þess flokks sem hefur eignarréttinn og persónufrelsið, efst á stefnuskránni, hefur t.d. mótmælt því að virkjanir við neðri hluta Þjórsár verði settar í biðflokk og sagði í ræðu á flokksráðsfundi fyrir skömmu að öfgamenn í umhverfismálum hefðu tekið orkumál í gíslingu. Landeigendur við neðri hluta Þjórsár sem eru andstæðingar virkjana á svæðinu falla þá væntanlega í flokk þessara öfgamanna fyrir að verja heimili sín og eignarlönd.

Einar Oddur Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var stjórnmálamaður sem ég varð málkunnugur á mínum stutta fréttamannaferli og bar mikla virðingu fyrir. Hann sagði í ræðu á Alþingi 2007 að eignarnám gæti ekki átt við í neðri hluta Þjórsár: ,,Auðvitað liggur það fyrir að það er fráleitt að nokkurt stjórnvald, hvað þá heldur ríkisfyrirtæki eins og Landsvirkjun, geti beitt því. Það kalla engin almannaheill á það þótt einhvern tímann hafi menn talið það í upphafi rafvæðingar á Íslandi." Það er allt annar og hófsamari tónn yfir þessu en yfirlýsingum núverandi formanns Sjálfstæðisflokksins.

Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar er eignarrétturinn friðhelgur og engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Í ljósi þess að orkunotkun á hvern Íslending er nú þegar sú mesta sem þekkist í heiminum þá er fráleitt að halda því fram að almannaheill kalli á virkjanir við neðri hluta Þjórsár eða í Skaftártungu. Og það er engin almenningsþörf sem réttlætir að stóriðjulínur verði reistar í Skagafirði.

Það er óábyrgt af forystu Sjálfstæðisflokksins og varla í anda grunngilda flokksins að taka beina afstöðu gegn því fólki sem nú þarf að verja heimili sín og eignarlönd fyrir orkufyrirtækjum víða um land. Með því styrkir flokkurinn í sessi ímynd sína sem óábyrgur flokkur sérhagsmuna og skyndilausna. Forystu flokksins væri nær að rækta með sér hina heilbrigðu íhaldsemi sem Guðmundur Andri Thorsson sagði nýverið að vantaði svo í íslensk stjórnmál: ,,Varfærna, búralega, tortryggna, trausta íhaldsmenn sem eru á móti flumbrugangi og skyndigróðabralli en vilja halda í það sem er gott, rækta það og varðveita, fara fetið. Í útlöndum kallar slíkt fólk sig konservatíft - það er sama orðið sem haft er um varðveislu og vernd. Náttúruvernd er íhaldsstefna."